Hvanneyrarprestakall
  • Forsíða
  • Helgihald
  • Kirkjurnar
    • Hvanneyrarkirkja
    • Bæjarkirkja
    • Lundarkirkja
    • Fitjakirkja
  • Úr skrapalaupum
    • Daglegur lestur Biblíunnar
    • Saga daganna
    • Prestar, kirkjur og prestssetur í Borgarfirði
    • Uppruni jóla
    • Jól að fornu
    • Orð til umhugsunar
    • Dymbilvika í Melasveit
    • Verndardýrðlingar kirkna
  • Myndir
  • Tenglar
 

Nokkur orð til umhugsunar

​Ástin
Ást er tímabundin bilun. Hún brýst fram með ofsa eins og jarðskjálfti og hjaðnar síðan. Og þegar hún er hnigin þarftu að taka ákvörðun. Þú þarft að gera þér grein fyrir því hvort rætur ykkar hafi tvinnast svo saman að óhugsandi sé að greiða þær sundur aftur. Þannig er ástin.

Ást er ekki það að verða andstuttur, hún er ekki æsingur, hún er ekki yfirlýsingar og loforð um eilífa ástríðu. Slíkt er bara „að vera ástfanginn“, sem við getum öll talið okkur trú um að við séum. Ástin sjálf er það sem eftir verður þegar ástarbríminn er kulnaður. Hún er í senn bæði list og heppileg tilviljun. Við móðir þín áttum þetta, við áttum okkur rætur sem gréru saman undir yfirborðinu, og þegar fögru blómin sölnuðu öll og féllu af greinunum varð okkur ljóst að við vorum einn trjástofn, en ekki tveir.
(Heilagur Ágústínum frá Hippó til sonar síns. Þýð. Flóki Kristinsson)

Ófullburða ást segir: Ég elska þig af því að ég þarfnast þín. Ást sem náð hefur þroska segir: Ég þarfnast þín af því að ég elska þig.
(Erich Fromm)

Ef þú elskar einhvern, láttu hann lausan, vegna þess að ef hann snýr til þín aftur hefur hann alltaf verið þinn. En snúi hann ekki til þín aftur, hefur þú aldrei átt neitt í honum. 
(Kahlil Gibran)

Bjartsýni
Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.
(Orðskviðir Salómons 15, 15)

Eigingirni
Mikið árans ósköp er veröldin eigingjörn. Allir hugsa eingöngu um sjálfan sig. Ég er sá eini sem hugsar um mig.
Robert Storm Petersen (Storm P.)

Ellin
Ellin er eins og fjallganga, maður mæðist að sönnu, en fær miklu betra útsýni.
(Ingrid Bergmann)

Fyrirgefning
Það er mannlegt að verða á, en guðlegt að fyrirgefa.
(Alexander páfi)

Hinn veiki getur aldrei fyrirgefið. Fyrirgefning er eiginleiki sem aðeins er gefin hinum sterku.
(Mahatma Gandhi) 

Án fyrirgefningar er engin framtíð.
(Desmond Tutu)

Sá sem ekki getur fyrirgefið öðrum, brýtur niður brúna sem hann þarf sjálfur þarf að ferðast yfir, ef hann vill komast til himnaríkis. Það er vegna þess, að allir þurfa á fyrirgefningu að halda.
(George Herbert)

Fyrirgefðu ávallt óvinum þínum - ekkert pirrar þá meira.
(Oscar Wilde)

Þú getur fyrirgefið næstum allt. En þú getur ekki umborið allt. Við þurfum ekki að umbera það sem aðrir gera til þess að geta fyrirgefið þeim. Það er læknandi að fyrir okkur sjálf að geta fyrirgefið. En það er lýjandi og sársaukafullt til lengdar að umbera allt.
(Lewis B. Smedes)

Fyrirgefningin breytir ekki því sem liðið er, en hún útvíkkar framtíðina.
(Paul Boese) 

Gjafir
Enginn hefur nokkurn tíma orðið fátækur fyrir það að gefa.
(Anna Frank)

Við þyggjum með því að gefa.
(Frans frá Assissi)

Það er ekki stór gjöf þegar þú gefur af eigum þínum. Hún verður stór þegar þú gefur af sjálfum þér.
(Kahlil Gibran)

Okkur ber að gefa, rétt eins og við þyggjum; í gleði, fljótt og óhikað, af því að engin hefur yndi af þeirri gjöf sem gefin er hikandi.
(Seneca)

Þú átt til fulls einungis það sem þú ert fær um að gefa. Allt sem þú ekki getur gefið, á þig.
(A. Gide)

Guð
Margt hef ég haft í hendi minni en týnt því öllu, en það sem ég hef lagt í hönd Guðs á ég enn.
(Marteinn Lúther)

Ég veit að Guð fær mér ekki verkefni sem ég er ekki fær um að leysa. Ég vildi bara að hann treysti mér ekki svona vel.
(Móðir Teresa)

Lífið í líkama þínum er sálin. En lífið í sálu þinni er Guð.
(Heilagur Antóníus frá Padúa)

Guðsþjónusta
Vinnan er guðsþjónusta hversdagsins. Guðsþjónustan er vinna sunnudagsins.
(Gustav Jensen)

Hamingjan
Bið þess ekki, að allt gerist svo sem þú vilt, heldur skal það vera vilji þinn, að allir hlutir gerist svo sem þeir gerast og þá munt þú verða hamingjusamur.
(Þýð. Broddi Jóhannesson)

Já, til er alsæla. Þú finnur til hennar þegar þú leiðir sauði þína í haga á grænum grundum, svæfir barnið þitt og ritar síðustu hendinguna í ljóð þitt.
(Kahlil Gibran)

Þegar dyr hamingjunnar lokast, opnast aðrar. En oft verður okkur svo starsýnt á lokaðar dyrnar að við veitum ekki athygli þeim sem opnar standa.
(Helen Keller)

Við ættum alltaf að íhuga hvað við höfum meira en okkur langar í og hversu óhamingjusamari við gætum verið en við erum.
(Joseph Addison)

Það er aðeins ein leið til að finna hamingjuna og það er að hætta að hafa áhyggjur af því sem ekki er á okkar valdi né að okkar vilja.
(Epiktetus)

Þegar þú getur ekki eignast það sem þig langar í, er tími til kominn að þig fari að langa í það sem þú átt.
(Kathleen A. Sutton)

Við hegðum okkur eins og þægindi og munaður séu grunnþarfir lífsins. Það sem við hins vegar þörfnumst til þess að öðlast hamingju er að verða gagntekin af einhverju.
(Albert Einstein)


Jól
Það verða jól í hvert sinn sem elska Guðs umvefur aðra fyrir þína tilstilli, já, það verða jól í hvert sinn sem þú brosir við bróður og réttir honum hönd þína.
(Móðir Teresa)

Það er í sjálfu sér stórfenglegt að það skuli vera til kærleiksmáttur og merking á bak við allt í veröldinni, ef maður trúir því. En það, að sá kærleikur og sú merking skuli hafa kosið að opinberast okkur sem barn, fætt í óþrifalegu greni og sárri fátækt er hrein snilld… og fær mig til þess að falla niður á hnén, í bókstaflegri merkingu.
(Bono, söngvari hljómsveitarinnar U2)

Jólin er sá tími þegar þú fyllist heimþrá - jafnvel þótt þú sért heima hjá þér.
(Carol Nelson)

Árið er aldrei svo langt, að jólin komi ekki sumum að óvörum.

Fegursta jólaskrautið er geislandi bros þitt.

Tillögur um jólagjafir:
Handa óvini þínum - fyrirgefning.
Handa andstæðingi - umburðarlyndi.
Handa vini þínum - hjarta þitt.
Handa skjólstæðingi - umhyggja.
Handa öllum - góðgerðir.
Handa sérhverju barni - góð fyrirmynd.
Handa sjálfum þér - virðing.
(Oren Arnold)

Jólasveinninn
Fjögur eru æviskeið mannsins. 1. Hann trúir á jólasveininn. 2. Hann trúir ekki lengur á jólasveininn. 3. Hann verður sjálfur jólasveinn. 4. Hann líkist jólasveini.

Kristindómur
Flestir þeirra sem telja sig hafna kristindóminum, eru fyrst og fremst að hafna skrumskælingu og fölskum hugmyndum um kristindóminn.
(C. S. Lewis) 

Ranghugmyndir eru helstu farartálmar á leið þeirra sem ekki taka við fagnaðarerindinu.
( J. G. Machen)

Kærleikur
Líf án kærleika er eins og ávaxtatré sem hvorki ber blóm né aldin.
(Kahlil Gibran)

Flestir menn þrá meiri kærleika en þeir eiga rétt á.
(Marie von Ebner-Eschenbach)

Kærleikurinn er fegurð sálarinnar.
(Heilagur Ágústínus)

Lífið
Lífið er perluband augnablika. Njóttu þeirra!

Missir
Þú misstir ekki. Segðu um engan hlut: Ég missti hann, heldur: Ég skilaði honum aftur. Barn þitt hefur látist, - því hefur verið skilað aftur. Konan þín hefur dáið, - henni hefur verið skilað aftur. Þú hefur verið sviptur óðali þínu, - einnig því hefur verið skilað aftur. En þú munt svara:
Hvað varðar þig, hvern gjafarinn kaus til þess að krefja það aftur? Meðan hann ljær þér það, skaltu geyma þess vel, en telja það annars eign sem gestir gistihúsið.
(Þýð. Broddi Jóhannesson)

Náttúran
Ekki gleyma því, að jörðin þráir að finna fyrir berum fótum þínum og vindinn langar til að leika um hár þitt.
(Kahlil Gibran)

Sannleikur
Hugsir þú aðeins um sjálfan þig og líðandi stund, skaltu ekki segja sannleikann. Venjulega eru menn þannig gerðir, að þeim þykir ekki þægilegt að heyra hann, og ef þú segðir hann, gæti það leitt til þess, að þeir hefndu sín á þér. Það sem þú gerir, má heldur ekki bera vott um ósíngirni þína. Það munu menn ekki fá skilið, og þess vegna reyna að koma því að, að gjörðir þínar væru af illum hvötum.

En ef framtíðin skiptir þig nokkru, og hinir fjölmörgu, sem þú hittir fyrir á lífsleiðinni, segðu þá sannleikann, og láttu ekki óttan við tortryggni fólks hamla því, að þú gerir það eitt, sem þú álítur rétt vera, en þú verður sjálfur að greiða því verði, sem það kostar. Seinna færðu það endurgoldið með samvisku þinni.
(Otto Benzon. Þýð. sr. Grímur Grímsson)

Úr Síraksbók í Gamla testamentinu

Latur maður líkist kámugum steini,
allir fussa af óþef hans.
Latur maður er sem mykjuhlass,
sá, er lyftir því, hristir hönd sína. 

Sá, er heimskingjann fræðir, líkist þeim, 
er límir saman brotið ker,
eða rífur mann upp úr fasta svefni.
Sá, er við heimskingjan ræðir,
mælir við svefnugan segg.
„Hvað var það?“ segir hann seinast.

Grát látna menn, því ljósið er horfið þeim;
grát heimska menn, þeim er horfið vitið.

Still harm þinn yfir látnum manni,
hann er til hvíldar genginn;
en líf heimskingjans er dapurlegra en dauðinn.
Menn syrgja dána í sjö daga,
en heimskingjar valda hryggð alla sína ævi.

Skipt ei mörgum orðum við óvitran mann,
né legg lag þitt við svín.
Varast það, svo þú hljótir ei vandræði af,
né fáir slettur, er það hrisstir forina af sér.
Forðast hann, svo þú finnir hvíld,
og verðir ei þreyttur á þvogli hans.

Sorg
Sóaðu ekki tárum þínum á löngu liðna sorg.

Trú
Trú er að treysta því sem þú getur ekki séð og laun þessa trausts er að sjá það sem þú trúir.
(Heilagur Ágústínus)

Tíminn 
Tíminn er alltaf nægur þeim sem notar hann.

Vald
Því sem knúið er fram með valdi, verður aðeins viðhaldið með valdi.
(Mahatma Gandhi)

Veröldin
Þessi veröld er brú, gakk hana, en reis þér ekki bústað á henni.
(Þessi orð eru skráð á borgarhlið í Indlandi, sem reist var á 16. öld og eru eignuð Jesú.)

Vinátta
Fólk minnist e.t.v ekki orða þinna en það gleymir ekki því, hvernig þú komst fram við það.
(Carl W.Buechner)

Þegar fram líða stundir, munum við ekki minnast orða óvina okkar, heldur þagnar vina okkar.
(Martin Luther King)

Viska
Þekking er fólgin í því að raða saman staðreyndum. Viska er fólgin í því að gera þær einfaldar.
(Mahatma Gandi) 

Ímyndunaraflið skiptir meira máli en þekking.
(Albert Einstein)

Von
Von er draumur hins vakandi manns.
(Aristotel)

Týnir þú peningum, tapar þú engu. Týnir þú ærunni, tapar þú miklu. Týnir þú voninni, tapar þú öllu.
(Finnskt orðtak)

Þú ert jafn ungur og trú þín og von, og jafn gamall og efi þinn og bölmóður.

Þegar þú talar
Vertu stuttorður þegar þú talar, það gefur orðunum þunga. Því minna sem er þvaðrað, þeim mun meira er sagt.

Sagt orð og steinn sem kastað hefur verið kemur ekki til baka.

Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.
(Orðskviðir Salómons, 15, 1)

Heimskinginn hefur engar mætur á hyggindum, heldur á því að kunngjöra hugsanir sínar.
(Orðskviðir Salómons, 18, 2)

Þolinmæði
Félagi viskunnar er þolinmæði.
(Heilagur Ágústínus)

Æskan
Ungmenni samtímans eru hreinustu harðstjórar. Þeir standa uppi í hárinu á foreldrum sínum, slafra í sig matinn og hrella kennara sína.
( Sókrates, fæddur 435 f. Kr.)

Æskan er sjúkdómur sem maður verður að umbera. Hún læknast með aldrinum.
(R.H. Benson)

Æskan er dásamleg gjöf. Það er syndsamlegt að sóa henni á börn.
(George Berhard Shaw)
Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Forsíða
  • Helgihald
  • Kirkjurnar
    • Hvanneyrarkirkja
    • Bæjarkirkja
    • Lundarkirkja
    • Fitjakirkja
  • Úr skrapalaupum
    • Daglegur lestur Biblíunnar
    • Saga daganna
    • Prestar, kirkjur og prestssetur í Borgarfirði
    • Uppruni jóla
    • Jól að fornu
    • Orð til umhugsunar
    • Dymbilvika í Melasveit
    • Verndardýrðlingar kirkna
  • Myndir
  • Tenglar