Jól að fornu
Sá siður að halda vetrarsólstöðuhátíðir er ævaforn. Norræna orðið jól og enska orðið yule voru t.a.m. notuð yfir slíkar miðsvetrarhátíðir löngu fyrir kristnitöku. Í norrænum ritum er talað um að "drekka jól" sem bendir til veisluhalds. Ekki er ljóst að slík hátíð hafi haft trúarlegt innihald í heiðnum sið en það er þó líklegt, miðað við það sem við þekkjum til annars staðar. Í Rómaveldi var t.d. frá fornu fari haldin hátíð til heiðurs guðinum Satúrnusi frá 17. til 23. desember. Þessi hátíð var nefnd Saturnalia. Í íslenskum miðaldaritum var Satúrnus kallaður Freyr og sérstætt að hugsa til þess að jólin í þeirri mynd sem við þekkjum þau hafi upphaflega verið Freyshátíð.
Með landvinningum sínum í austri á 1. öld f. Kr. komust Rómverjar í kynni við trúarbrögð þar sem slíkar hátíðir voru tengdar við fæðingu guðs. Þar er merkastur persneski guðinn Míþras en hann átti að hafa fæðst 25. desember. Slíkt er auðvitað eðlilegt þegar um sólguð er að ræða, að hann sé talinn fæðast við vetrarsólstöður. Meðal áhangenda Míþrasar voru keisararnir Nero og Commodus. Míþras var tignaður víða í Rómaveldi þar til kristni var lögtekin þar á 4. öld. Aurelianus Rómarkeisari, sem var við völd 270-275, vildi sameina þessar sólstöðuhátíðir Saturnalia-hátíðinni. Úr varð fæðingardagur sólarinnar ósigrandi (dies natalis Solis invicti) sem haldinn var hátíðlegur 25. desember.
Á hinn bóginn höfðu kristnir menn ekki ákveðnar hugmyndir um fæðingardag Jesú og ekki þótti sérstök ástæða til að halda upp á hann. Ýmsir dagar voru þar nefndir til, ekki síst á vordögum enda mátti ráða af guðspjöllunum að Kristur hefði fæðst þá. Þegar kristni varð að ríkistrú hjá Rómverjum yfirtók kirkjan hins vegar ýmsa forna helgidaga. Þar á meðal var fæðingarhátíð frelsarans sem tengd var hátíðahöldunum á degi sólarinnar. Á 5. öld var 25. desember opinberlega lýstur fæðingardagur Jesú af hálfu kirkjunnar í Róm. Þá hófst sá miðaldasiður að kristnir menn tóku að einoka jólin.
Jólahátíðin er því sambland af fornri trú á persneskan sólguð, hátíð helgaðri rómverskum frjósemisguð og fæðingarhátíð sólarinnar en allir þessir þræðir tengdust síðan í hátíð sem helguð er spámanni af gyðingaættum. En áður en sú hátíð kom til sögunnar drukku Íslendingar jól og munu líklega gera það um langan aldur.
(Sverrir Jakopsson í Fréttablaðinu 17. des 2005)
Sá siður að halda vetrarsólstöðuhátíðir er ævaforn. Norræna orðið jól og enska orðið yule voru t.a.m. notuð yfir slíkar miðsvetrarhátíðir löngu fyrir kristnitöku. Í norrænum ritum er talað um að "drekka jól" sem bendir til veisluhalds. Ekki er ljóst að slík hátíð hafi haft trúarlegt innihald í heiðnum sið en það er þó líklegt, miðað við það sem við þekkjum til annars staðar. Í Rómaveldi var t.d. frá fornu fari haldin hátíð til heiðurs guðinum Satúrnusi frá 17. til 23. desember. Þessi hátíð var nefnd Saturnalia. Í íslenskum miðaldaritum var Satúrnus kallaður Freyr og sérstætt að hugsa til þess að jólin í þeirri mynd sem við þekkjum þau hafi upphaflega verið Freyshátíð.
Með landvinningum sínum í austri á 1. öld f. Kr. komust Rómverjar í kynni við trúarbrögð þar sem slíkar hátíðir voru tengdar við fæðingu guðs. Þar er merkastur persneski guðinn Míþras en hann átti að hafa fæðst 25. desember. Slíkt er auðvitað eðlilegt þegar um sólguð er að ræða, að hann sé talinn fæðast við vetrarsólstöður. Meðal áhangenda Míþrasar voru keisararnir Nero og Commodus. Míþras var tignaður víða í Rómaveldi þar til kristni var lögtekin þar á 4. öld. Aurelianus Rómarkeisari, sem var við völd 270-275, vildi sameina þessar sólstöðuhátíðir Saturnalia-hátíðinni. Úr varð fæðingardagur sólarinnar ósigrandi (dies natalis Solis invicti) sem haldinn var hátíðlegur 25. desember.
Á hinn bóginn höfðu kristnir menn ekki ákveðnar hugmyndir um fæðingardag Jesú og ekki þótti sérstök ástæða til að halda upp á hann. Ýmsir dagar voru þar nefndir til, ekki síst á vordögum enda mátti ráða af guðspjöllunum að Kristur hefði fæðst þá. Þegar kristni varð að ríkistrú hjá Rómverjum yfirtók kirkjan hins vegar ýmsa forna helgidaga. Þar á meðal var fæðingarhátíð frelsarans sem tengd var hátíðahöldunum á degi sólarinnar. Á 5. öld var 25. desember opinberlega lýstur fæðingardagur Jesú af hálfu kirkjunnar í Róm. Þá hófst sá miðaldasiður að kristnir menn tóku að einoka jólin.
Jólahátíðin er því sambland af fornri trú á persneskan sólguð, hátíð helgaðri rómverskum frjósemisguð og fæðingarhátíð sólarinnar en allir þessir þræðir tengdust síðan í hátíð sem helguð er spámanni af gyðingaættum. En áður en sú hátíð kom til sögunnar drukku Íslendingar jól og munu líklega gera það um langan aldur.
(Sverrir Jakopsson í Fréttablaðinu 17. des 2005)